
Um fiskbúðina
„Fiskbúðin Sundlaugaveg 12 ... hefir daglega á boðstólnum alls konar fisk. Fyrsta flokks frysti- og kælitæki, sem er trygging fyrir vandaðri vöru. Opin allan daginn. Látið ekki hjá líða að líta inn og reyna viðskiptin. Fljót og vönduð afgreiðsla.“
Með þessum orðum gerði Mýrkjartan Rögnvaldsson grein fyrir fiskverslun sinni í auglýsingu snemma árs 1950 og var greinilegt að landsmenn áttu að vita hvar best væri að sækja fiskinn en boðskapurinn birtist í einum sex prentmiðlum. Fiskbúðin hafði verið starfrækt á þriðja ár en svo virðist sem hún hafi ekki verið auglýst fyrr og greinilegt að eigandinn hefur séð ástæðu til að minna á sig. Síðan þá hefur hún vaxið og dafnað en þær eru ekki margar fiskbúðirnar sem náð hafa jafn háum aldri og hefur hún þjónað Reykvíkingum og öðrum landsmönnum í tæplega 80 ár.
Mýrkjartan var enginn nýgræðingur þegar hann hóf að selja fisk við Sundlaugaveg 12. Hann hafði verið skipstjóri á Akureyri en eftir að hann fluttu suður til Reykjavíkur árið 1930 varð hann sér fljótlega úti um handvagn og tók að selja fisk við svonefnda Steinbryggju sem lá í beinu framhaldi af Pósthússtræti en hún var um árabil aðalbryggja bæjarins. Kreppan var gengin í garð og lífsbaráttan hörð en Mýrkjartan var útsjónarsamur kaupmaður. Leið ekki á löngu þar til hann hafði opnað fiskbúð við Laugaveg. Hann fjárfesti jafnframt í vörubíl og tók að keyra um nærsveitir Reykjavíkur með fisk og brauð. Þræddi hann byggðirnar frá Laugarneshverfi allar götur austur í Mosfellssveit. Gamall viðskiptavinur minntist þess síðar að börnin hafi beðið hans með óþreyju því hann var gjarn á að gefa þeim vínarbrauðsbita og ekki var gleði hinna fullorðnu minni að þurfa ekki að ná í fiskinn langar leiðir.
Mýrkjartan hafði fasta viðkomustaði á leið sinni og blés hann í þokulúður til að gera vart við sig. Venjulega voru það konur og krakkar sem brugðust við kallinu. Er haft á orði að Mýrkjartan hafi verið léttur í lund og viðræðugóður og höfðu húsmæðurnar gaman að spjalla við hann en yfirleitt var enginn asi á fólki á þessum árum. Allur fiskur var seldur í heilu og var vír stungið í gegnum augun. Hann var viktaður í skálum og vildi vatn safnast þar fyrir og mun það iðulega hafa verið viktað með gætti viðskiptavinurinn þess ekki að hafa orð á því. Létu margir sér það í léttu rúmi liggja en húsmóðirin á bænum Hólum við Kleppsveg var þekkt fyrir að verja sinn rétt með eftirfarandi orðum: „Viltu gera svo vel að hella úr skálinni góði“.
Laugarneshverfi tók að byggjast hratt upp á fimmta áratugnum. Mýrkjartan sá sér leik á borði að verða fyrstur til að opna fiskverslun í hverfinu og fékk hann inni í bragga skömmu eftir stríðslok en hann var staðsettur norðan megin við Laugarnesskóla. Hafði hann fiskinn í svonefndum bölum sem í raun voru breiðar viðartunnur og voru aðstæður fremur frumstæðar. Vildi Mýrkjartan koma sér betur fyrir og leið ekki á löngu þar til hann fékk leyfi til að reisa tvílyft íbúðar- og verslunarhús með rishæð á horni Sundlaugavegar og Gullteigs. Þar varð Fiskbúðin Sundlaugavegi 12 til eftir töluverðan aðdragandi eins og fram hefur komið.
Öll aðstaða batnaði til muna. Baka til var gott vinnurými með kæli og átti Mýrkjartan nú auðveldara með að halda fiskinum ferskum og að gera að honum en það færðist í vöxt að húsmæður gerðu kröfu um að fá hann verkaðann til að losna við að þurfa sjálfar að roðfletta og úrbeina. Í stað þess að læða fingri undir vírinn sem settur var í gegnum fiskinn sem seldur var í heilu varð algengara að viðskiptavinir tækju við honum pökkuðum inn í dagblöð og var fiskurinn þá tilbúinn til eldunar þegar heim var komið.
Mýrkjartan rak fiskbúðina fram á miðjan sjötta áratuginn en þá tók Guðmundur Kristjánsson við rekstri hennar og var verslunin í hans höndum fram undir 1980 þegar Svanberg sonur hans tók við. Svanberg færði fiskbúðina í nútímalegra horf en hún mun hafa verið nálægt upprunalegri mynd þegar hann tók við. Verslunin varð vistlegri og kæliborð var sett í afgreiðsluna þar sem áður hafði verið borð með fáeinum sýnishornum í bökkum. Mestallur fiskurinn hafði verið geymdur í kæli og frysti baka til enda var afgreiðslurýmið mjög fábrotið. Það leit óneitanlega betur út að hafa fiskinn sýnilegan auk þess sem viðskiptavinir fengu hann ferskari en áður. Þá jók Svanberg framboðið. Eitthvað smáræði hafði verið á boðstólnum áður til viðbótar við fiskinn svo sem kartöflur, hamsatólg og tólg en nú bættust við niðursuðuvörur, rúgbrauð og plokkfiskur ásamt fleiru smálegu.
En mesta viðbótin voru tvímælalaust fiskréttirnir sem Svanberg innleiddi. Var það ekki síst til að lokka unga fólkið í búðina en fiskneysla fór minnkandi og var það helst eldra fólk sem hélt tryggð við fiskinn. Gamla soðningin var sem fyrr efst á lista hjá þeim sem eldri voru en unga fólkið vildi meiri fjölbreytni og gaf sér yfirleitt minni tíma til að matreiða. Þá var ekki ónýtt að geta farið í fiskbúðina við Sundlaugaveg og fá ýsubita í karrýsósu í álbakka sem setja mátti beint í ofninn. Eldra fólkið var minna fyrir slíka nýbreytni en þó voru alltaf einhverjir reiðubúnir að reyna eitthvað nýtt og keyptu þeir hinir sömu yfirleitt aftur tilbúnu réttina sem festu sig rækilega í sessi.
Ýsan seldist sem fyrr langmest en eitthvað var einnig um að fólk keypti þorsk, lúðu, steinbít, saltfisk, kinnar, gellur, hrogn og lifur svo það helsta sé talið. Val á fiski var að nokkru leyti landshlutabundið því þeir Norðlendingar sem litu inn við Sundlaugaveginn kusu heldur að kaupa þorsk en ýsu. Fiskneysla var einnig í nokkrum mæli árstíðabundin. Mikið seldist t.d. af hrognum í byrjun árs og með vorinu kom grásleppan og rauðmaginn. Ekki má heldur gleyma skötunni sem varð sífellt vinsælli enda þurfti iðulega að hafa allar klær úti til að hafa upp á henni. Eitthvað var um að menn borðuðu hana reglulega allan ársins hring en mest var salan vitaskuld í desember. Undirbúningur fyrir Þorláksmessuskötuna stóð yfir allt árið því það tók tíma að safna nægum forða fram á haust þegar hún var sett í kös til kæsingar.
Fiskbúðin Sundlaugavegi 12 hefur ekki einungis þjónað Laugarneshverfi dyggilega því viðskiptavinirnir koma víða að. Þá hefur fisksalinn ekki látið duga að selja fisk yfir borðið því hann hefur einnig selt fisk í heildsölu í mötuneyti og veitingahús. Því er ekki að undra að blaðamenn hafi oft lagt leið sína á Sundlaugaveginn til að viða að sér efni um fiskneyslu landsmanna. Það er til að mynda forvitnilegt að glugga í vel myndskreytt viðtal í Morgunblaðinu við þá bræður Þórð og Steingrím Ólasyni frá aldamótaárinu 2000 en þeir ráku búðina um árabil. Þar kemur vel fram hversu mikil félagsmiðstöð fiskbúðin hefur verið í hverfinu og minnir það um margt á horfinn tíma þegar kaupmaðurinn á horninu var einn helsti vettvangur mannlífs. Þar eru málefni dagsins rædd og fisksalinn veit ýmislegt um daglegar venjur viðskiptavina auk þess sem hann ræður þeim heilt í innkaupum. Einkum var nauðsynlegt að leiðbeina karlmönnum sem áttu oft á tíðum í vandræðum með að kaupa rétt inn og var stundum nauðsynlegt að gæta þess að þeir keyptu ekki of mikið!
Á seinni árum hafa fiskbúðirnar þurft að snúa vörn í sókn vegna breyttra neysluhátta og aukinnar samkeppni frá stórmörkuðum. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan Mýrkjartan seldi fiskinn í heilu í lítilli skonsu og hefur fiskbúðum fækkað mjög á þeim árum sem liðin eru. Til að lifa af hafa þær fiskbúðir sem eftir eru þurft að laga sig að auknum kröfum um gæði og úrval. Það hefur Fiskbúðin við Sundlaugaveg 12 gert með því að leggja áherslu á ferskt hráefni og mikinn fjölda tilbúinna rétta. Margar verslanir hafa verið í húsinu frá því það var byggt sem verslunar- og íbúðarhús en fiskbúðin er sú eina sem hefur fylgt því óslitið frá upphafi. Nú hefur fiskbúðin lagt alla jarðhæðina undir sig og eru engin ellimerki á henni að sjá, þrátt fyrir að hafa starfað í næstum 80 ár. Þau hvatningarorð sem komu fram í fyrstu auglýsingu hennar eiga ekki síður við í dag en þá: „Látið ekki hjá líða að líta inn og reyna viðskiptin. Fljót og vönduð afgreiðsla.“